Staða sjóðsins í lok 155 ára afmælisárs

Ágætu sjóðsfélagar.

Styrktar-og sjúkrasjóður verzlunarmanna í Reykjavík fagnar 155 ára afmæli þann 24. nóvember næstkomandi. Frá 150 ára afmælinu þegar síðast var farið í stóra fjársöfnun hefur sjóðurinn veitt styrki að fjárhæð rúmlega 12 milljónir króna. Sjóðurinn hefur að undanförnu beint styrkveitingum annars vegar til Reykjalundar og hins vegar til HL-stöðvarinnar með áherslu á endurhæfingarstarf.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sýnir Bjarna Ingvari Árnasyni veggskjöld sem var settur upp hjá HL-stöðinni vegna gjafa sjóðsins.
Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sýnir Bjarna Ingvari Árnasyni veggskjöld sem var settur upp hjá HL-stöðinni vegna gjafa sjóðsins.

Aðalfundur sjóðsins fyrir árin 2019 og 2020 var haldinn í HL-stöðinni við Hátún 23. nóvember 2021. Var það fyrsti aðalfundur eftir Covid sem þó var ekki séð fyrir endann á. Gafst nú færi að afhenda formlega gjafir til stöðvarinnar sem þegar voru komnar í notkun. Einnig var sjóðsfélögum sýnd aðstaða HL- stöðvarinnar. Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, stjórnarformaður HL-stöðvarinnar, lýsti starfseminni en stöðin er sjálfseignarstofnun – stofnsett af Hjartavernd árið 1989 – og er stærsta þjálfunarstöð hjarta- og lungnasjúklinga á landinu.

Formaður minntist látinna félaga og gat sérstaklega Höskuldar Jónssonar sem var manna drýgstur í fjáröflun fyrir sjóðinn meðan hans naut við.

Á fundinum var Ásbjörn Einarsson endurkjörinn formaður. Aðrir stjórnarmenn voru kjörnir Eyjólfur Árni Rafnsson, Friðbert Pálsson, Hrafn Magnússon og Þorgeir Eyjólfsson. í varastjórn voru kjörnir Bjarni Ingvar Árnason, Jón Á. Ágústsson og Steingrímur Gröndal. Guðmundur Jóelsson var kjörinn skoðunarmaður reikninga og Viðar Böðvarsson til vara. Þeir Eyjólfur Árni og Þorgeir eru nýir stjórnarmenn.

Eignir sjóðsins nema nú rúmlega 20 milljónum króna þrátt fyrir ofangreindar gjafir.

Með bestu kveðjum,
Ásbjörn Einarsson, formaður SSVR

Staða sjóðsins í lok 154 ára afmælisárs.

Ágætu sjóðsfélagar.

Nú fer að koma að 154 ára afmæli sjóðsins og þar með aðalfundi en hann verður með breyttu sniði í ár. Við munum byrja á að heimsækja HL-stöðina, Hátúni 14, 105 Reykjavík, þriðjudaginn 23. nóvember kl. 15.00 og skoða aðstöðuna og þann tækjabúnað sem við höfum verið að gefa þangað. Síðan verður kaffi og við afhendum formlega nýjustu gjöfina og höldum aðalfundinn. Þess er vænst að sem flestir félagar sjái sér fært að mæta.

Styrkveitingar sjóðsins á árinu 2021 hafa numið um 6,2 milljónum króna. HL-stöðin bað um aðstoð við kaup á búnaði til þess að fylgjast stöðugt með blóðþrýstingi, hjartslætti o.fl. hjá fólki í áhættuhópi við æfingar. Sjóðurinn keypti umbeðinn búnað að verðmæti rúmlega 5 mkr og er hann þegar kominn í notkun. Hefur hann reynst mjög vel. Einnig óskaði Reykjalundur eftir aðstoð okkar við kaup á blandstraumstæki sem er ein gerð sérhæfðra höggbylgjutækja. Sjóðurinn keypti tæki og annan búnað sem þurfti þar með að verðmæti um 1.2 mkr. Tækið var afhent sl. sumar.

Afhending blandstraumstækis á Reykjalundi.

Afmælisbókin er nú komin á heimasíðu sjóðsins. Hún er einnig aðgengileg sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafninu.

Eignir sjóðsins nema nú rúmlega 21 milljón króna þrátt fyrir ofangreindar gjafir.

Minnum aftur á aðalfundinn þann 23. nóvember kl. 15.00 í HL-stöðinni.

Með bestu kveðjum,
Ásbjörn Einarsson, formaður SSVR

150 ára afmælisrit SSVR

Með því að smella á hnappinn hér að neðan getur þú lesið afmælisrit S.S.V.R. sem gefið var út á 150 ára afmæli félagsins árið 2017.

Staða sjóðsins í lok 153 ára afmælisárs

Ágætu sjóðsfélagar.

Nú fer að koma að 153 ára afmæli sjóðsins þann 24. nóvember n.k.  Vegna veirumála verður því miður ekki hægt að halda aðalfund í tengslum við afmælið. Stjórnin ákvað því að senda félögum fréttabréf um starfsemina að undanförnu.

Styrkveitingar sjóðsins á árunum 2019 og 2020 hafa numið nær 6 milljónum króna. HL-stöðin bað um aðstoð við kaup á þrekhjólum sem eru sérstyrkt fyrir notendur í yfirþyngd. Sjóðurinn keypti 5 hjól að verðmæti rúmlega 2 mkr og afhenti HL-stöðinni vorið 2019. Einnig óskaði Reykjalundur eftir hjálp við kaup á sérhæfðum búnaði til mælinga á starfsemi hjartans hjá sjúklingum sem þar koma til meðferðar. Sjóðurinn keypti tæki og búnað sem þurfti að verðmæti um 3.5 mkr og er gjöfin þegar komin í notkun. Formleg afhending hefur þó ekki farið fram vegna veirunnar. 

Formaður SSVR afhendir Þórdísi Jónu Hrafnkelsdóttur, stjórnarformanni HL-stöðvarinnar, gjafabréf fyrir 5 sérstyrktum þrekhjólum.

Félögum var send 150 ára afmælisbókin um síðustu jól. Bókinni var einnig dreift til styrktaraðila. Við 

væntum þess að hún  hafi verið mikið lesin. Ásgeir Ásgeirsson, höfundur bókarinnar, hefur þar unnið stórvirki og á hann miklar þakkir skildar fyrir framtakið.

Eignir sjóðsins nema nú rúmlega 23 milljónum króna sem er svipað og í lok afmælisársins 2017.

Með bestu kveðjum,
Ásbjörn Einarsson, formaður SSVR.
asbjorn@tpostur.is

Aðalfundur Styrktar- og sjúkrasjóðs verzlunarmanna í Reykjavík árið 2017.

Hátíðarfundur vegna 150 ára afmælis sjóðsins.

Fundurinn var haldinn í Kornhlöðunni við Lækjarbrekkuföstudaginn 24. nóvember 2017, klukkan 12 á hádegi.  Mættir voru 30 félagar og gestir.

Formaður, Ásbjörn Einarsson, setti fund og bauð gesti velkomna, þau Ásdísi Kristjánsdóttur og Andra Þór Sigurgeirsson frá Reykjalundi og Þórdísi Jónu Hrafnkelsdóttur og Sólrúnu Óskarsdóttur frá HL stöðinni.

Fundarstjóri var kosinn Hrafn Magnússon og Steingrímur Gröndal fundarritari.

Lesa meira